Velkomin í Netskrafl!

Í Netskrafli getur þú spilað skrafl við tölvu eða aðra leikmenn. Leikreglurnar eru eins og í hefðbundnu borðskrafli, en einungis eru leyfð orð sem fyrirfinnast í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls - og tveggja stafa orð samkvæmt lista Skraflfélags Íslands.

Í upphafi leiks hefur þú sjö stafaflísar sem sýndar eru í rekkanum fyrir neðan borðið. Ef þú átt leik (sýnt með rauðu flaggi við notandanafn þitt) getur þú lagt þær niður með því að draga þær með músinni (smella á flís, draga hana á réttan stað og sleppa músarhnappnum). Einnig má nota fingur til að draga flísar á spjaldtölvum og snertiskjám. Þú getur flutt flísar til á borðinu eða dregið þær til baka í rekkann ef þú færð bakþanka. og Esc hnappurinn á lyklaborðinu senda allar flísar til baka í rekkann, en og Backspace endurraða rekkanum af handahófi.

Þegar þú hefur lagt niður orð eins og þú vilt hafa það smellirðu á græna hnappinn . Andstæðingur þinn fær nú rauða flaggið, svarar með sínum leik og þá er röðin aftur komin að þér. (Tölvuþjarkarnir svara alltaf strax.) Nýjar flísar sem andstæðingur leggur niður eru sýndar með grænum lit á borðinu.

Ef þú getur ekki lagt niður orð og vilt sitja hjá smellirðu á appelsínugula hnappinn . Þá færð þú ekki stig heldur á andstæðingurinn næsta leik.

Ef þú vilt skipta út flísum í rekkanum smellirðu á græna hnappinn . Þú þarft að velja þær flísar sem þú vilt skipta með því að smella á þær. Þegar skiptin hafa farið fram færðu ekki stig og andstæðingurinn á leik. Ef færri en sjö flísar eru eftir í "pokanum" er ekki hægt að skipta.

Viðureign er lokið þegar síðasta flísin hefur verið lögð niður, eða ef báðir leikmenn hafa setið hjá þrisvar í röð (sex sinnum alls). Þú getur einnig gefið leikinn með því að smella á rauða hnappinn .

Hér fyrir neðan er svarað rúmlega 30 algengum spurningum um Netskrafl og virkni þess. Ef spurningu þinni er ekki svarað hér er um að gera að leggja hana fram í Facebook-hópi Netskrafls.

Spurningar:

  1. Hvaða orð eru leyfð í Netskrafli og af hverju?
  2. Hvað þýðir BÍN?
  3. Orðið X er í BÍN en er ekki leyft í Netskrafli. Af hverju?
  4. Andstæðingur fékk að leggja niður orðið X en ég finn það ekki í BÍN. Af hverju?
  5. Hver er munurinn á þjörkunum - Fullsterkum, Miðlungi og Amlóða?
  6. Mér finnst vanta orðið X í Netskrafl. Hvernig kem ég því á framfæri?
  7. Mér finnst þjarkarnir draga betri stafi en ég. Hvernig stendur á því?
  8. Þjarkarnir leggja niður orð sem ég fæ ekki að nota. Hverju sætir?
  9. Andstæðingurinn hefur ekki leikið í marga daga. Hvernig losna ég við „dauðar viðureignir“?
  10. Hvað þýðir græna teiknið með penna og ferningi við einkenni leikmanns?
  11. Hvar get ég séð tveggja stafa orðalistann?
  12. Get ég losnað við lúðraþytinn sem heyrist þegar ég sigra í viðureign?
  13. Ég lokaði óvart minnismiðanum sem útskýrir hvað litirnir á borðinu þýða. Hvernig fæ ég hann aftur upp?
  14. Af hverju fæ ég upp vefsíðu frá Google þegar ég ætla að opna Netskraflið?
  15. Hvernig eru stigin reiknuð?
  16. Hvað eru Elo-stig?
  17. Hvar sé ég Elo-stigin?
  18. Hvernig eru Elo-stigin reiknuð?
  19. Hver er formúlan fyrir Elo-stigunum nákvæmlega?
  20. Af hverju vantar Elo-stig á nýjustu viðureignir hjá mér?
  21. Af hverju eru tveir Elo-listar?
  22. Hvað þýðir blái barnavagninn í Elo-dálknum í viðureignalista?
  23. Stendur til að búa til smáforrit fyrir snjallsíma?
  24. Hvað er „nýi pokinn“?
  25. Hvernig sé ég hvort viðureign fer fram með nýja pokanum?
  26. Hvernig setur maður inn broskalla í spjallinu?
  27. Hvað er „vinur Netskrafls“?
  28. Hvernig hætti ég að vera „vinur Netskrafls“?
  29. Hvað er „keppnishamur“?
  30. Hvernig skora ég á andstæðing í keppnisham?
  31. Innskráning tekst ekki. Hvað á ég að taka til bragðs?

Svör:

  1. Hvaða orð eru leyfð í Netskrafli og af hverju?

    Netskrafl leyfir eftirfarandi orð:

    • Orðmyndir sem finna má í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN) (sjá næstu spurningu).
    • Óbeygjanleg orð (m.a. atviksorð, forsetningar og smáorð) af orðalista sem ekki er í BÍN sjálfri en má nálgast sérstaklega á vef BÍN.
    • Spurnarmyndir sagna í eintölu (“Borðaðirðu kvöldmatinn snemma?”) sem ekki eru í BÍN sjálfri en nálgast má sérstaklega á vef BÍN.
    • Orð sem eru á tveggja stafa orðalista Skraflfélags Íslands, eins og hann var ákveðinn af Orðanefnd þess í september 2015.
    • Örfá vel þekkt orð sem bætt hefur verið handvirkt við orðagrunn Netskrafls vegna þess að þau vantar augljóslega í BÍN.

    Orð sem eru ekki leyfð í Netskrafli eru m.a.:

    • Sérnöfn hvers konar, þar á meðal þjóðaheiti (Íri, Dani, Breti).
    • Skammstafanir.
    • Hljóðlíkingar og dýrahljóð.
    • Erlend orð og slettur.
    • Fornt og úrelt mál.
    • Samsett orð sem ekki eru í BÍN.
    • Spurnarmyndir sagna í fleirtölu (“Borðuðuði kvöldmatinn snemma?”).
    • Tveggja stafa orð önnur en þau sem eru á orðalista Skraflfélags Íslands.
    • Örfáar orðmyndir sem hafa verið felldar niður handvirkt úr orðagrunni Netskrafls vegna þess að þær eru augljóslega villur í BÍN.

    Uppfærsla á orðalista Netskrafls er sótt til BÍN á nokkurra mánaða fresti.

    Á vegum Skraflfélags Íslands er starfandi Orðanefnd. Hlutverk hennar er að leggja meginlínur um leyfileg orð í íslensku skrafli, halda við orðalistum, taka við ábendingum og úrskurða í álitamálum. Orðagrunnur Netskrafls er og verður uppfærður í samræmi við niðurstöður Orðanefndar hverju sinni.

  2. Hvað þýðir BÍN?

    Skammstöfunin BÍN stendur fyrir Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það er gagnagrunnur yfir orðmyndir í íslensku sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur utan um. Nú eru um 2,3 milljónir orðmynda í grunninum. Netskrafl notar gagnagrunn BÍN til að skera úr um hvort orð teljist leyfilegt eða ekki, með örfáum undantekningum, svo sem hvað varðar tveggja stafa orð.

    Nánari upplýsingar um BÍN, og uppflettingu í gagnagrunninum, má finna á vefnum á https://bin.arnastofnun.is.

    (Höfundarréttur að BÍN er á hendi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. BÍN er notað í Netskrafli skv. skilmálum stofnunarinnar þar um.)

  3. Orðið X er í BÍN en er ekki leyft í Netskrafli. Af hverju?

    Það gætu verið nokkrar ástæður fyrir því. Orðið gæti verið sérnafn eða upphrópun, það gæti verið eitt af tveggja stafa orðunum sem ekki eru á lista Orðanefndar Skraflfélags Íslands, eða það gæti verið nýkomið inn í BÍN. Þá kemur það inn í Netskraflið í næstu uppfærslu þess. Um tiltekin orð má alltaf spyrja í Facebook-hópi Netskraflsins.

    Sjá einnig svar við spurningu 1.

  4. Andstæðingur fékk að leggja niður orðið X en ég finn það ekki í BÍN. Af hverju?

    Auk orða sem eru í megingrunni BÍN leyfir Netskrafl:

    • Óbeygjanleg orð (smáorð, forsetningar, atviksorð).
    • Spurnarmyndir sagna í eintölu (“Fórstu út að borða í kvöld?”).
    • Tveggja stafa orð af lista Skraflfélags Íslands, sem eru ekki öll í BÍN.
    • Örfá vel þekkt orð sem hefur verið bætt handvirkt við orðalista Netskrafls enda vantar þau augljóslega í BÍN.

    Það er algild regla að ef andstæðingur, mennskur eða þjarki, fær að leggja niður orð þá mátt þú það líka - og öfugt. Sami orðagrunnur gildir fyrir alla, alltaf!

  5. Hver er munurinn á þjörkunum - Fullsterkum, Miðlungi og Amlóða?

    Fullsterkur velur alltaf stigahæsta leik sem mögulegur er í hverri stöðu. Hann hugsar hins vegar ekki taktískt, og lætur sér til dæmis í léttu rúmi liggja hvort lögn opnar fyrir að andstæðingurinn leggi á rauðan reit.

    Miðlungur forðast allra sjaldgæfustu orðin í orðasafninu og velur af handahófi einn af tíu stigahæstu leikjunum sem mögulegir eru.

    Amlóði forðast sjaldgæf orð og velur úr 20 leikjum sem koma til álita.

    Fullsterkur hefur úr sama orðaforða að moða og leikmenn almennt, þ.e. orð úr BÍN sem samræmast skraflreglum auk orða sem Orðanefnd hefur ákveðið að séu leyfileg.

    Miðlungur kann um það bil 95% af orðaforða BÍN, en hefur ekki á takteinum orð sem merkt eru sem forn, úrelt, sjaldgæf eða staðbundin.

    Amlóði hefur hins vegar töluvert minni orðaforða en hinir þjarkarnir. Orðaforði hans er um það bil fjórðungur af aðalgrunninum. Þótt orðaforði Amlóða sé takmarkaður getur þú eftir sem áður lagt niður öll leyfileg orð gegn honum.

  6. Mér finnst vanta orðið X í Netskrafl. Hvernig kem ég því á framfæri?

    Einfaldast er að nota Facebook-hóp Netskraflsins eða Facebook-síðu Skraflfélags Íslands, en einnig er unnt að koma orðum á framfæri við ritstjóra BÍN. Sjá nánari upplýsingar á vef BÍN.

  7. Mér finnst þjarkarnir draga betri stafi en ég. Hvernig stendur á því?
  8. Það er óheppileg tilviljun. Þjarkarnir draga stafi eftir sama algríminu og þú. (Algrímið er „formúlan“ í hugbúnaði Netskrafls sem sér um að velja stafi úr „pokanum“ af handahófi.)

  9. Þjarkarnir leggja niður orð sem ég fæ ekki að nota. Hverju sætir?

    Það er algild regla að ef andstæðingur, mennskur eða þjarki, fær að leggja niður orð þá mátt þú það líka (og öfugt). Sami orðagrunnur gildir fyrir alla, alltaf.

    Það getur komið fyrir að þú fáir rautt höfnunarmerki á gilt orð ef villa kemur upp í netþjóni, t.d. vegna mikils álags. Þú getur þá prófað að síglæða síðuna (Refresh, F5 takkinn á PC), eða einfaldlega að smella á græna „Leika” hnappinn þrátt fyrir höfnunarmerkið. Ef orðið er í reynd leyfilegt kemst það í gegn, annars færðu nánari villutilkynningu frá netþjóni. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af að kerfið ruglist eða leyfi þér óvart að leggja niður ógilt orð.

    Sjá einnig svar við spurningu 4.

  10. Andstæðingurinn hefur ekki leikið í marga daga. Hvernig losna ég við „dauðar viðureignir“?

    Þú getur þvingað andstæðing til uppgjafar þegar liðnir eru 14 dagar án leiks í viðureign. Þegar það gerist tapar sá óvirki öllum stigum sínum, og viðureigninni væntanlega þar með. Þú heldur þínum stigum hins vegar óskertum.

    Eftir 12 daga án leiks birtist rautt stundaglas við viðureignina í viðureignalista óvirka leikmannsins. Hann hefur þá tvo sólarhringa til að bregðast við. Geri hann það ekki birtist rauða stundaglasið einnig hjá þér. Ef þú opnar viðureignina með því að smella á hana sérðu rauðan hnapp neðst á síðunni, fyrir neðan borðið, sem á stendur “Þvinga til uppgjafar”.

    Ef þú smellir á hnappinn hefur þú sigrað með þvingaðri uppgjöf. Engin tímamörk eru á slíkri þvingun, ef stundaglasið er komið upp á annað borð.

  11. Hvað þýðir græna teiknið með penna og ferningi við einkenni leikmanns?

    Merkið gefur til kynna að viðkomandi skraflari gangist undir heiðursmannasamkomulag um að nota ekki stafræn hjálpartæki þegar hann skraflar við aðra leikmenn. Með stafrænum hjálpartækjum er átt við ýmis konar vefsíður sem leita að orðum, svo sem “skraflhjálp”, krossgátuorðabók og hjálpartæki í Orðaleiknum (eldra skrafli á netinu). Innbyggðir möguleikar í Netskraflinu sjálfu, svo sem orðaleit jafnóðum og uppfletting í tveggja stafa orðalistanum, teljast ekki vera stafræn hjálpartæki í þessu sambandi.

    Hægt er að gangast undir heiðursmannasamkomulagið og virkja teiknið með því að smella á nafnið sitt í hægra horninu, opna með því upplýsingar um notanda og velja þar til gerðan rofa (sjá mynd).

  12. Hvar get ég séð tveggja stafa orðalistann?

    Ef þú smellir á miðjutáknið (björgunarhringinn ) hægra megin við borðið og við hliðina á stigatöflunni, birtist listinn.

    Ef þú smellir svo á listann sjálfan skiptir hann milli þess að raðast eftir síðari stafnum og þeim fyrri.

    Þú getur einnig séð tveggja stafa orðalistann hér.

  13. Get ég losnað við lúðraþytinn sem heyrist þegar ég sigra í viðureign?

    Já, þú getur slökkt á honum í stillingum. (Hægt er að opna stillingarnar með því að smella á nafnið sitt efst í hægra horni síðunnar.)

    Myndin sýnir hvernig rofinn á að vera stilltur til að slökkva á lúðraþytinum.

  14. Ég lokaði óvart minnismiðanum sem útskýrir hvað litirnir á borðinu þýða. Hvernig fæ ég hann aftur upp?

    Hann er opnaður í stillingunum. (Hægt er að opna stillingarnar með því að smella á nafnið sitt efst í hægra horni síðunnar.)

    Myndin sýnir hvernig rofinn á að vera stilltur til að minnismiðinn sjáist.

  15. Af hverju fæ ég upp vefsíðu frá Google þegar ég ætla að opna Netskraflið?

    Netskrafl notar Google innskráningu til að auðkenna notendur, þá sömu og er til dæmis notuð í Gmail og Google Maps. Innskráning gildir í tiltekinn tíma, yfirleitt ekki lengur en 30 daga. Þegar innskráningin rennur út kemur upp skráningarmynd frá Google og þá þarf að slá inn notandaauðkenni og lykilorð. Að því loknu birtist Netskraflið eins og venjulega.

  16. Hvernig eru stigin reiknuð?

    Stig fyrir hvern leik eru reiknuð með sama hætti og í hefðbundnu borðskrafli. Meginreglurnar eru:

    • Lögð eru saman stafgildi (stig) flísanna í öllum heilum orðum sem niðurlögn þín myndar, hvort sem það eru ný orð eða viðbætur við orð sem fyrir voru á borðinu. Orð geta myndast bæði lárétt og lóðrétt, “þvers og kruss”. Öll orð verða að sjálfsögðu að vera leyfileg.
    • Ef þú leggur flís á ljósbláan eða dökkbláan reit margfaldast stafgildi þeirrar flísar, þ.e. tvöfaldast á ljósbláum reit og þrefaldast á dökkbláum. Hin margfölduðu stig telja bæði í láréttu og lóðréttu orði ef reiturinn er hluti af tveimur nýmynduðum orðum. Ef þú nærð til dæmis að leggja niður É, sem hefur stafgildi 7, á dökkbláan reit (þrefalt stafgildi) þannig að það sé hluti af tveimur orðum, færðu samtals 7 x 3 x 2 = 42 stig bara fyrir É-ið eitt og sér - og þá er eftir að telja hina stafina.
    • Ef þú leggur flís á ljósrauðan eða dökkrauðan reit margfaldast stigagildi alls orðsins sem flísin er hluti af, þ.e. tvöfaldast á ljósrauðum og þrefaldast á dökkrauðum. Margföldunin gildir bæði fyrir lárétt og lóðrétt orð ef reiturinn er hluti af tveimur nýmynduðum orðum.
    • Fyrir hvert nýmyndað orð eru stafgildi, einföld eða margfölduð (á ljósbláum eða dökkbláum reit) reiknuð fyrst og lögð saman. Að því loknu er orðgildið sem þannig fæst margfaldað upp ef nýjar flísar í orðinu eru á ljósrauðum eða dökkrauðum reit. Athugaðu að orð getur legið yfir tvo margföldunarreiti, sem gefa þá samtals fjórfalt eða jafnvel nífalt orðgildi.
    • Margföldunarreitir eru aðeins virkir í þeim leik sem flís er lögð á þá. Eftir það missa þeir virkni sína. Flísar sem á þeim eru hafa einfalt stafgildi ef þær eru hluti af orðum sem síðar eru lögð niður.
    • Auðu flísarnar, sem geta táknað þann bókstaf sem leikmaður kýs, gefa engin (núll) stafastig.
    • Ef leikmaður nær að setja út alla sjö stafina í rekkanum í einni lögn kallast það bingó og gefur 50 stiga aukabónus.

    Ef þú segir pass eða velur að skipta út flísum færðu engin stig í þeirri umferð.

  17. Hvað eru Elo-stig?

    Netskrafl reiknar svokölluð Elo-stig (sjá hér) fyrir alla leikmenn og einnig tölvuþjarkana. Útreikningarnir eru gerðir einu sinni á sólarhring, og ná til viðureigna sem lokið er á miðnætti.

    Stigin eru vísbending um styrk leikmanna, en á ekki að taka of alvarlega.

    Nýskráðir leikmenn fá í upphafi 1200 Elo-stig. Stigunum fjölgar í hvert sinn sem leikmaður sigrar í viðureign, en fækkar við tap.

    Elo-stig virka í stórum dráttum þannig að á grundvelli þeirra er gerð spá um niðurstöðu viðureignar, eða nánar til tekið um vinningslíkur hvors leikmanns. Þegar niðurstaðan liggur fyrir eru Elo-stig færð frá þeim sem tapaði til þess sem sigraði, í hlutfalli við frávik niðurstöðunnar frá spánni. Segja má að kerfið sé stöðugt að leiðrétta eigin spár og leitast við að færa þær nær raunverulegum niðurstöðum viðureigna.

  18. Hvar sé ég Elo-stigin?

    Þú sérð þín eigin Elo-stig undir flipanum Ferill. Þau eru einkennd með dökkblárri kórónu .

    Elo-stigin eru vinstra megin, hjá kórónunni - þau eru 1170 í þessu dæmi. Leikmaðurinn hefur lokið 15 viðureignum, unnið 40% þeirra og fengið að meðaltali 91 stig í hverri viðureign.

    Elo-stig 100 efstu leikmanna má sjá undir flipanum Andstæðingar ef smellt er á hnappinn  Topp 100. Unnt er að sjá Elo-stig sem byggja eingöngu á viðureignum milli mennskra leikmanna (), eða stig sem reiknuð eru fyrir allar viðureignir, að þjörkum meðtöldum ().

  19. Hvernig eru Elo-stigin reiknuð?

    Elo-kerfið er stillt þannig af að hækkun um 400 stig táknar tíföldun líkinda á sigri. Það þýðir að ef tveir leikmenn eigast við, þar sem annar hefur t.d. 1100 stig en hinn 1500, eru líkur þess síðarnefnda á sigri taldar vera 10:1 (tíu á móti einum), þ.e. 10/11, en hins fyrrnefnda 1/11.

    Ef allt fer eins og líklegast er talið og sá stigahærri sigrar, urðu úrslitin 1:0 fyrir honum eða með öðrum orðum 11/11 honum í hag en 0/11 fyrir andstæðinginn. Niðurstaðan er 1/11 umfram spá, sem var 10/11. Það umframhlutfall er margfaldað með tölunni 20 og rúnnað af í heila tölu. Útkoman er að stigahái leikmaðurinn bætir við sig 2 Elo stigum með sigrinum, enda er hann í góðu samræmi við spá kerfisins.

    Ef á hinn bóginn sá með 1100 stigin sigrar óvænt þann með 1500 snýr dæmið öfugt. Árangur stigalága leikmannsins varð 11/11 en spáð var 1/11. Umframárangur var 10/11 og þegar hann er margfaldaður með 20 og rúnnað af fæst út að leikmaðurinn bætir við sig 18 Elo-stigum - sem sá sterki tapar. Bilið milli þeirra minnkar því úr 400 stigum í 364.

    Hér má sjá nokkur dæmi um spá Elo-kerfisins um sigurlíkur leikmanna eftir stigamun þeirra:

    Stigamunur 50 stig 100 stig 200 stig 400 stig
    Stigahærri
    leikmaður
    57% 64% 76% 91%
    Stigalægri
    leikmaður
    43% 36% 24% 9%

    Elo-kerfi Netskrafls lítur aðeins á sigur, jafntefli eða tap. Ekki skiptir máli með hversu mörgum stigum viðureign vannst eða tapaðist. Jafntefli er talið sem hálfur vinningur hjá hvorum leikmanni.

    Sú undantekning er gerð að fyrstu 10 viðureignir byrjenda breyta aðeins Elo-stigum þeirra sjálfra, ekki andstæðinga þeirra (nema þeir séu einnig byrjendur). Það er því óhætt fyrir reyndari leikmenn að etja kappi við byrjendur, þó Elo-stig þeirra séu hugsanlega röng til að byrja með.

  20. Hver er formúlan fyrir Elo-stigunum nákvæmlega?

    Ef E(a) eru Elo-stig leikmanns A og E(b) stig leikmanns B, reiknar kerfið S(a) = 10^(E(a)/400) og S(b) = 10^(E(b)/400). Vinningslíkur A eru þá L(a) = S(a) / (S(a) + S(b)), en vinningslíkur B eru L(b) = S(b) / (S(a)+ S(b)). Ef A sigrar leikinn fær hann 20 * (1 - L(a)) Elo-stig í viðbót, en tapi hann leiknum dragast af honum 20 * (1 - L(b)) = 20 * L(a) enda er L(a) + L(b) = 1. Sama gildir fyrir B með öfugum formerkjum.

    Dæmi: A hefur 1200 Elo-stig en B 1600. S(a) = 10^3 = 1000. S(b) = 10^4 = 10000. L(a) = 1000 / 11000 = 9,09%. L(b) = 10000/11000 = 90,91%. B er sem sagt talinn 10 sinnum líklegri en A til að sigra leikinn. Ef það verður niðurstaðan fær B 20 * 9,09% = 2 Elo-stig í viðbót, enda sigurinn mjög nálægt spánni. Ef B tapar hins vegar, dragast af honum 20 * 90,91% = 18 Elo-stig, sem A fær - enda er A þá talinn vanmetinn leikmaður sem eigi að færast nær B í stigafjölda.

  21. Af hverju vantar Elo-stig á nýjustu viðureignir hjá mér?

    Elo-útreikningarnir fara fram í kring um kl. 02:15 á hverri nóttu og miðast við viðureignir sem lokið var á miðnætti.

  22. Af hverju eru tveir Elo-listar?

    Annar listinn, sem merktur er , tekur mið af öllum viðureignum, einnig við þjarka. Hinn listinn, sem merktur er , er aðeins reiknaður út frá viðureignum milli fólks. Elo-staða leikmanna getur verið mismunandi á þessum tveimur listum.

  23. Hvað þýðir blái barnavagninn í Elo-dálknum í viðureignalista?

    Viðureignir við byrjendur, þá sem eru ennþá með færri en 10 viðureignir, teljast ekki með í Elo-stigum reyndari leikmanna. Þær eru sérstaklega merktar með bláum barnavagni í stað Elo-stiga.

  24. Stendur til að búa til smáforrit fyrir snjallsíma?

    Nei, ekki að svo stöddu. Vefur Netskrafls er hins vegar hannaður til að virka vel á skjám spjaldtölva, t.d. iPad, og þokkalega vel á stærri snjallsímum.

  25. Hvað er „nýi pokinn“?

    Nýi íslenski skraflpokinn var búinn til á vegum Skraflfélags Íslands og kynntur í október 2015. Hann er endurbót á eldri, upphaflega skraflpokanum sem fylgdi íslensku borðskrafli á sínum tíma.

    Í nýja pokanum eru 100 flísar í stað 104 í þeim eldri. Fjöldi stafa og stig þeirra voru stillt af, með tölvuútreikningum og -hermun, þannig að allir stafir væru því sem næst jafn ákjósanlegir í rekkanum. Jafnframt var gætt að jafnvægi milli sérhljóða og samhljóða, og að tíðni stafa endurspeglaði íslenskt ritmál.

    Nánar er fjallað um nýja pokann hér.

    PDF skrá sem sýnir nýja pokann grafískt má sækja hér.

  26. Hvernig sé ég hvort viðureign fer fram með nýja pokanum?

    Gamli (upphaflegi) pokinn er nú einungis notaður ef báðir leikmenn eru merktir honum.

    Nýi pokinn þekkist á því að hann er fölblár á litinn, neðst í hægra horni leikborðsins:

    Gamli pokinn er aftur á móti ljósbrúnn.

  27. Hvernig setur maður inn broskalla í spjallinu?

    Í spjallflipa Netskrafls er hægt að slá inn tákn sem birtast sem mismunandi „broskallar“.

    Táknin eru yfirleitt samsetningar af „augum“, „nefi“ og „munni“. Nefinu (bandstrikinu - ) má sleppa.

    Hér er yfirlit um broskallanna:

    :-) :-D ;-)
    :-( :-o :-p
    B-) (y)
  28. Hvað er „vinur Netskrafls“?

    Netskrafl hefur frá upphafi verið smíðað og rekið í sjálfboðavinnu, og er ókeypis. En það fylgir því nokkur kostnaður að keyra og hýsa kerfið frá mánuði til mánaðar.

    Því býðst skröflurum að gerast vinir Netskrafls og leggja lága upphæð, 490 kr. - andvirði    eins kaffibolla á kaffihúsi - í púkkið mánaðarlega, til að halda þessari skemmtilegu og skerpandi dægradvöl gangandi.

    Í þakklætisskyni njóta vinir Netskrafls eftirfarandi fríðinda:

    • Ótakmarkaður fjöldi viðureigna í gangi samtímis, í stað 8 að hámarki.
    • Aðgangur að yfirliti í lok viðureignar, sem sýnir bestu leiki sem mögulegir voru í hverri stöðu.
    • Þeir geta skorað á aðra leikmenn í keppnisham með handvirkri véfengingu án „græna þumalsins“.
  29. Hvernig hætti ég að vera „vinur Netskrafls“?

    Það er einfalt: þú smellir hér og staðfestir svo. En það væri leitt að missa þig!

  30. Hvað er „keppnishamur“?

    Vinir Netskrafls geta skorað á aðra leikmenn í keppnisham. Í keppnisham er enginn grænn þumall sem segir til um hvort orð eru gild eða ekki. Leggja má niður hvaða orð sem er. Það er andstæðingsins að véfengja lögn sem hann telur ranga.

    Lögn andstæðings er véfengd með því að smella á dökkbláan hnapp með hvítu bannmerki.

    Ef lögn andstæðings er ógild, þ.e. eitthvert orð sem hún myndar er ekki í orðagrunni Netskrafls, er hún fjarlægð af borðinu og stig sem andstæðingurinn fékk fyrir hana eru dregin af honum. Þú átt þá leik en andstæðingurinn hefur fyrirgert umferðinni og fær engin stig fyrir hana.

    Ef lögn andstæðings er hins vegar gild, og véfengingin þar af leiðandi óréttmæt, fær andstæðingurinn 10 stig aukalega í sárabætur. Þú átt hins vegar áfram leik.

    Keppnishamnum er ætlað að líkja eftir hefðbundnu borðskrafli. Reglur um véfengingu eru í samræmi við reglur Skraflfélags Íslands.

  31. Hvernig skora ég á andstæðing í keppnisham?

    Ef þú ert Vinur Netskrafls getur þú skorað á aðra leikmenn í keppnisham, hvort sem þeir eru einnig Vinir Netskrafls eður ei.

    Keppnishamur er valinn með rofa í glugganum sem kemur upp þegar þú gefur út áskorun. Á myndinni sést hvernig rofinn á að vera stilltur fyrir keppnisham:

    Áskorun í keppnisham er merkt með áberandi merki, ljósaperu á rauðum grunni:

  32. Innskráning tekst ekki. Hvað á ég að taka til bragðs?

    Netskrafl styðst við hugbúnað frá Google til að auðkenna og innskrá notendur. Google-innskráningin krefst þess að vafrinn leyfi vefkökur (e. cookies) og sprettiglugga (e. pop-ups). Nær allir vafrar eiga að styðja Google-innskráningu, a.m.k. með réttum stillingum.

    Ef þú átt í vandræðum með innskráningu geturðu m.a. prófað eftirfarandi:

    • Ef þú ert með auglýsingavörn (e. ad blocker) í vafranum þarftu að taka hana úr sambandi fyrir lénið netskrafl.is. Þar eru engar auglýsingar þannig að vörnin er óþörf.
    • Það þarf að leyfa vefkökur (e. cookies) í vafranum fyrir lénið netskrafl.is. Sjá nánar hér að neðan.
    • Það þarf að leyfa sprettiglugga (e. pop-ups) í vafranum fyrir lénið netskrafl.is.
    • Notaðu nýjustu útgáfur af meginstraums-vöfrum, svo sem Google Chrome og Mozilla Firefox. Apple Safari virkar líka en virðist kalla á endur-innskráningu oftar en aðrir vafrar.

    Stilling vafra til að leyfa vefkökur

    Google Chrome

    Opnaðu nýjan flipa og sláðu inn eftirfarandi vefslóð: chrome://settings/cookies

    Skrunaðu niður í eftirfarandi stillingu:

    Smelltu á hnappinn Add.

    Sláðu inn netskrafl.is og merktu við All cookies, on this site only, eins og hér sést:

    Smelltu á Add.

    Prófaðu innskráninguna - nú ætti hún að virka.

    Mozilla Firefox

    Opnaðu nýjan flipa og sláðu inn eftirfarandi vefslóð: about:preferences#privacy

    Skrunaðu niður í eftirfarandi stillingu:

    Smelltu á hnappinn Manage Exceptions....

    Í reitnum Address of website, sláðu inn netskrafl.is og smelltu svo á Allow, eins og hér sést:

    Smelltu á Save Changes.

    Prófaðu innskráninguna - nú ætti hún að virka.

  33.  

Frá og með október 2015 notar Netskrafl nýjan íslenskan skraflpoka sem búinn var til á vegum Skraflfélags Íslands, til viðbótar þeim eldri og upprunalega.

Leikmenn sem eru tilbúnir að skrafla með nýja pokanum gefa það til kynna með því að velja rofa í notandaupplýsingum. (Allir nýskráðir leikmenn í Netskrafli eru sjálfkrafa merktir sem tilbúnir í nýja pokann.) Hér er sýnt hvernig rofinn á að vera stilltur í þessu skyni:

Hér sést nýi pokinn í myndrænu formi:

(Sömu mynd á PDF-formi til útprentunar má sækja hér)

Á eldri (upphaflega) skraflpokanum eru ýmsir vankantar, eins og skraflarar kannast við. Í honum eru til dæmis of mörg E sem gefa of fá stig; stafirnir Ú og Ý eru happafengur enda stigaháir en auðvelt að koma þeim út, og svo mætti áfram telja.

Við hönnun nýs skraflpoka var leitast við að gera alla stafi því sem næst jafn ákjósanlega, í þeim skilningi að þeir staldri jafn lengi við í rekka leikmanns að meðaltali. Leitað var að bestu lausn með því að láta tölvu prófa sig áfram í átt að betri poka í yfir tíu milljónum viðureigna. Þess var jafnframt gætt að hæfilegt jafnvægi væri milli sérhljóða og samhljóða, og að dreifing stafanna væri nálægt því sem gerist í íslenskum texta almennt.

Með nýja pokanum er unnt að leggja niður lengri orð að meðaltali, og heppni í stafadrætti skiptir eilítið minna máli en áður. Í honum eru 100 flísar í stað 104 í eldri pokanum, en samanlögð stig flísanna eru jafnmörg.

Gamli pokinn er nú aðeins notaður í viðureign ef hvorugur leikmaður er merktur með nýja pokanum. Þjarkarnir laga sig ætíð að ósk mennska leikmannsins.

Tilkoma nýja pokans hefur engin áhrif á Elo-stig leikmanna eða útreikning þeirra.

Um Netskrafl

Höfundur Netskrafls er Vilhjálmur Þorsteinsson. - Copyright © 2022 Miðeind ehf.

Bestu þakkir fyrir veitta aðstoð:
Borgar Þorsteinsson, Hlín Önnudóttir, Páll Hilmarsson, Sigrún Helga Lund, Steinar Sturlaugsson.

Netskrafl notar Google Accounts aðgang og innskráningu til að auðkenna notendur.
Þú getur breytt notandaupplýsingum þínum hér eða með því að smella á notandanafnið efst hægra megin í glugganum. Netskrafl sækir hvorki né geymir persónuupplýsingar.

Fylgstu með og taktu þátt með því að ganga í    Facebook-hópinn!

Frumforrit Netskrafls eru opin á   GitHub skv. skilmálum CC-BY-NC 4.0.


Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. © Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Höfundur og ritstjóri Kristín Bjarnadóttir.


Rekstraraðili vefjarins er Miðeind ehf. | kt. 591213-1480 | netskrafl@netskrafl.is | VSK nr. 137060

Netskrafl leyfir tveggja stafa orð sem eru á lista Skraflfélags Íslands samkvæmt ákvörðun Orðanefndar þess í september 2015.

Þú getur flett upp í listanum meðan á viðureign stendur með því að smella á flipann sem merktur er með björgunarhring .

Leyfileg tveggja stafa orð eru eftirfarandi:

af ak al an ar as at ax
áa áð ái ál ám án ár ás át
do
ef eg ei ek el em en er es et ex ey
ég él ét
fa
ha
il im
íð íl ím ís
je
ku
la
mi
of og oj ok op or
óa óð óf ói ók ól óm ón óp ós óx
pu
re
so
te ti
um un
úa úð úf úi úr út
yl ym yr ys
ýf ýg ýi ýk ýl ýr ýs ýt
þá þó þú þý
æð æf æg æi æl æp ær æs æt
öl ör ös öt öx